RHÍ Fréttir

nr. 25 apríl 1995

  

  

Kristján Gaukur Kristjánsson

Fréttir af nemendakerfi

Nokkrar breytingar hafa átt sér stað í nemendakerfi háskólans að undanförnu. Þó að þær snúi aðallega að nemendaskrá og vinnu þar innandyra þá kemur það deildum háskólans einnig við og vilja þær eflaust hafa áhrif á nokkur atriði.

Hér skal fyrst telja að endurvakin hefur verið skönnun á námskeiðaskráningu nemenda. Árið 1991 voru gerðar tilraunir með skanna sem þá hafði nýlega verið keyptur í samvinnu kennslusviðs og félagsvísindamanna. Þær tilraunir gáfu góðar vonir um vinnusparnað við skráningu en þó þurfti að endurskoða ferlið.

Nú hefur verið útbúið nýtt blað fyrir skannan sem á að liggja frammi fyrir nemendur um leið og kennsluskráin kemur út. Geta þeir þá verið búnir að kynna sér það og jafnvel komið með það tilbúið til árlegrar skráningar og sparað sér þannig töluverðan tíma niðri í nemendaskrá.

Þennan skanna geta starfsmenn háskólans komist í í samráði við kennslusvið.

Möguleg lengd á deilda-, brauta- og skorarheitum (bæði á íslensku og ensku) hefur verið lengd í kerfinu úr 30 stöfum í 40. Þetta á að verða til þess að ekki þurfi lengur að stytta heiti. Það sem var bagalegast við þessar styttingar var hvernig þær komu fram á brautskráningarskírteinum nemenda, en þetta ætti nú að vera leyst. Þeir sem vilja hafa áhrif á skráningu þessara heita skulu hafa samband við Brynhildi í nemendaskrá.

Nú hefur einnig verið gefinn kostur á skráningu enskra heita kandídatsritgerða. Áður var ekki talin þörf á þessu en í vaxandi mæli þurfa nemendur útprentuð skírteini á ensku með þessum upplýsingum vegna umsókna um nám við erlenda skóla.

Ef einhverjar hugmyndir eru á lofti um frekari þróun og nýtingu á nemendakerfinu er hægt að koma þeim til Brynhildar í nemendaskrá (bimma@rhi.hi.is) eða kennslusviðs.

  
Notendaþjónusta RHÍ,  16. febrúar 2000 

Efnisyfirlit Fyrri grein Næsta grein Önnur fréttabréf RHÍ