RHÍ Fréttir

nr. 30 febrúar 1997

  

  

Leitarvél á vefsíðu Háskólans

Hafsteinn Þór Hafsteinsson

Á síðasta ári voru settar upp á heimasíðu Háskólans þrjár leitarvélar sem leita að efni sem staðsett er á vefþjóni skólans. Tvær þessara véla leita í vefsíðum og ein í fundargerðum. Leitarvélarnar byggja, eins og flestar aðrar leitarvélar, á því að notandi sendir inn fyrirspurn sem inniheldur eitt eða fleiri leitarorð. Leitarvélin kannar hvort leitarorðin sé að finna á þeim stað sem ætlunin er að leita, og sendir niðurstöður leitarinnar aftur til notandans. Áðurnefndar leitarvélar eru ekki sambærilegar þeim leitarvélum sem flestir þekkja, svo sem InfoSeek eða AltaVista, þar sem þær leita eingöngu í skjölum sem staðsett eru á vefþjóni Háskólans.

Vélarnar eru nokkuð ólíkar að uppbyggingu þótt sama notendaviðmót sé á þeim öllum. Meginmunurinn liggur í hvaða skjölum vélarnar leita í. Skipta má hlutverki vélanna í þrjá flokka.

Leit í vefsíðum Háskólans

Þetta er sú leitarvél sem flestir munu nota. Hún leitar í vefsíðum (HTML-skjölum) sem staðsettar eru á vefþjóni Háskólans. Vélin leitar einnig í síðum á vegum Reiknistofnunar Háskólans þó svo sérstök leitarvél hafi verið sett upp fyrir það verk.

Leit í fundargerðum

Þessi leitarvél býður upp á leit í fundargerðum fjögurra aðila, nánar tiltekið Háskólaráðs, Kynningarnefndar Háskóla Íslands, verkfræðideildar og raunvísindadeildar. Vélin skilar þeim fundargerðum sem innihalda leitarorðið. Ofangreindar fundargerðir voru áður aðgengilegar í Gopher.

Leit í vefsíðum RHÍ

Þessi leitarvél vinnur á sama hátt og sú fyrsta nema hvað leitarsvið hennar takmarkast við síður á vegum Reiknistofnunar.

Framkvæmd leitar

Eins og áður segir eru leitarvélarnar aðgengilegar frá aðalvefsíðu Háskólans. Að framkvæma leit er í sjálfu sér mjög einfalt, einungis þarf að slá inn leitarorðið og smella á leitarhnappinn. Leitarorðið má vera hluti úr orði eða heilt orð. Ekki er gerður greinarmunur á há- og lágstöfum. Ef ætlunin er að leita í fundargerðum eða vefsíðum Reiknistofnunar er smellt á Leiðbeiningar hlekkinn. Við það birtist önnur vefsíða þar sem velja má viðkomandi leitarvél en á henni má einnig finna nánari leiðbeiningar um notkun vélanna t.d. hvernig leita má að mörgum orðum samtímis. Upplýsingarnar sem leitarvélin vinnur með eru uppfærðar á hverri nóttu. Sé skjali bætt á vefþjón Háskólans má leita að því daginn eftir.

  
Notendaþjónusta RHÍ,  16. febrúar 2000 

Efnisyfirlit Önnur fréttabréf