RHÍ Fréttir

nr. 26 október 1995

  

  

Sigfús Magnússon
Guðmundur Bjarni Jósepsson

Þjófnaður í tölvuveri Reiknistofnunar

Starfsmönnum Reiknistofnunar brá heldur betur í brún er þeir mættu til vinnu föstudaginn 29. september. Brotist hafði verið inn í timburhús skólans "Vetrarhöll" um nóttina og stórtjón unnið á tölvubúnaði þar. Nýjar Pentium tölvur voru spenntar upp og kassarnir gjöreyðilagðir. Það sem þjófarnir voru að sækjast eftir var innra minni tölvanna. Tjónið sem af þessu hlaust er metið á eina milljón króna.

Ekki í fyrsta skipti
Um miðjan ágúst var brotist inn í sama tölvuver og minni stolið úr tveimur tölvum. Öll ummerki benda til þess að sömu aðilarnir hafi verið á ferðinni í bæði skiptin.

Í báðum tilvikum var málið að sjálfsögðu kært umsvifalaust til lögreglu sem kom á vettvang og rannsakaði verksummerki.

Flott mynd

Faraldur
Eins og alþjóð veit er að ganga yfir í Reykjavík faraldur þar sem tölvubúnaði er stolið. Ekki var hægt að ætlast til þess að Reiknistofnun færi varhluta af þessari glæpaöldu. Óttast var um innbrot hjá Reiknistofnun og hefur það nú gengið eftir.

Hér er um að ræða þjófnað á tölvubúnaði sem virðist vera eftirsóttur af glæpamönnum sökum þess hve búnaðurinn er lítill, léttur, meðfærilegur og auðseljanlegur. Nánast er ómögulegt að merkja minniskubba og er því ekki hægt að rekja hvaðan þeir koma.

IMG SRC="simmar.jpg" ALT="Flott mynd">

Athygli vakti að harðir diskar, skjáspjöld og annar verðmætur búnaður var skilinn eftir þrátt fyrir að fjarlægja þyrfti t.d. hörðu diskana til að komast að minniskubbunum. Þetta sýnir að þjófarnir virtust ekki hafa neinn áhuga á búnaði sem er merktur með framleiðslunúmeri.

Þetta er greinileg breyting frá því sem áður var, því fyrir nokkrum árum var til að mynda rándýrri Macintosh tölvu stolið úr sama húsi í heilu lagi með skjá og öllu saman.

Flott mynd

Stjórn Reiknistofnunar ályktaði um málið á fundi sem haldinn var klukkutíma eftir að innbrotið uppgötvaðist: „Vegna síendur-tekinna innbrota og þjófnaða á tækjabúnaði háskólans verði þegar í stað gripið til viðeigandi ráðstafana til að verja eigur skólans."

Þegar fréttabréfið fór í prentun var tölvuverið í Vetrarhöll ennþá lokað vegna viðgerða og hefur kennsla verið færð í önnur tölvuver af þeim sökum.

  
Notendaþjónusta RHÍ,  16. febrúar 2000 

Efnisyfirlit Næsta grein Önnur fréttabréf RHÍ