RHÍ Fréttir

nr. 27 desember 1995

  

  

Douglas Brotchie

Ýmislegt smálegt

Öryggisafritataka
RHÍ er að skoða möguleika á að bjóða upp á öryggisafritatöku fyrir nettengda PC notendur eins og er á boðstólum í dag fyrir notendur með Unix vélum og Macintosh. Við viljum finna lausn fyrir PC án þess að þurfa að taka í notkun enn eitt kerfi. Við viljum frekar fækka fjölda kerfa og sameina tvö núverandi kerfi í eitt.

Windows95
Athugun á því kerfi er í fullum gangi hjá RHÍ. Kerfið kom á markað í ágúst sem einstaklingskerfi, frekar en "industrial-strength" kerfi fyrir staðarnetsnotkun. Flestir stærri notendur hafa þurft að gefa sér góðan tíma til að skipuleggja innleiðsluna og hafa okkar kannanir til dæmis leitt í ljós að flestir háskólar telja fullt tilefni til að fara varlega við innsetninguna. Efnisatriði sem eru í athugun: samhæfni (compatibility) við þau forrit sem þegar eru í notkun undir Windows 3.1, stuðningur fyrir Boot PROM ræsiaðferð sem nú er í notkun í öllum tölvuverum stofnunarinnar, aðgangsstýring (heilsun, skráning notenda, sannreynsla leyniorða); stuðningur við stór skráanöfn í öllum tengdum kerfum: læsing á uppsetningarbreytum og rekstri í fjölnotendaumhverfi eins og tölvuverin eru.

Þjónusta í tölvuverum
Vinnuhópur reyndustu starfsmannanna er að athuga, endurskoða og skilgreina þjónustu í tölvuverum Reiknistofnunar - kröfur og leiðir til að mæta þeim

Tölvuver í Lögbergi
Undirbúningur undir nýtt almennt tölvuver í Lögbergi stóð yfir á meðan fréttabréfið fór í prentun.

Endurnýjun í tölvuverum
Síðasti áfanginn í endurnýjunaráætlun fyrir 1995 fór fram í nóvember þegar nýju, sérhönnuðum tölvuborðum var komið fyrir í stofu 102 í Odda. Þar með er komið í stofuna hið fullkomnasta tölvuver.

Nýtt tölvuver í Odda
Nýtt tölvuver verður skipulagt og komið upp á þriðju hæð í Odda nú um áramótin.

Einmenningstölvurnar þar verða þó ekki nýjar, heldur Silicon Valley 386 vélar sem áður voru í notkun í Odda í stofu 102. Gert er ráð fyrir uppsetningu á eldri (kröfuminni) útgáfum af MS-Word, MS-Excel, WordPerfect og einnig telnet. Tölvupóstur verður þannig aðgengilegur en ekki NetScape eða álíkt WWW-flettiforrit.

Könnun
Sérstök athugun á því hvaða forrit notendur nota helst í tölvuverum var í gangi í nóvember. Þetta er gert bæði fyrir forvitni sakir, en þó aðallega til að við getum betur gert okkur grein fyrir því hvaða hugbúnaður það er sem þarfnast uppfærslu hvað helst og hvort einhver hugbúnaður sem Reiknistofnun býður upp á sé ónotaður.

Samvinna við nemendur
Gagnleg samvinna með nemendum er í gangi í Odda til að kanna hvað hægt sé að gera til að greiða fyrir nemendaaðgangi að nettengdum tölvubúnaði, meðal annars með því að skoða möguleika á að bæta aðgang án þess endilega að fjölga einmenningstölvum.

Vinna fyrir Þjóðminjasafnið
Vinna við gerð þarfalýsingar fyrir tölvuvæðingu er hafin að beiðni safnsins og menntamálaráðuneytisins. Álík vinna er einnig hafin fyrir tilraunastöð háskólans í meinafræði að Keldum.

Nefndarstörf
Sigfús Magnússon tekur þátt, tilnefndur af Reiknistofnun, í nefnd rektors sem undirbýr skráningu ritverka og Rannsóknaskrár á neti.

Leiðbeinendur
Endurskoðun stendur yfir um fyrirkomulag á starfsemi leiðbeinenda í tölvuverum, undir forystu umsjónarmanns tölvuvera.

Endurnýjun símstöðvar
Starfsmenn Reiknistofnunar hafa tekið þátt í athugun sem stendur nú yfirá endurnýjun á Alcatel símstöðvarbúnaði skólans.

Lotus Notes
Athugun um gagnsemi hugbúnaðarpakkans Lotus Notes og tilheyrandi notendakerfis hefur verið í gangi í nokkra mánuði til að meta gagnsemi þess fyrir notkun við stjórnsýslu skólans.

Skráning verkbeiðna
Nýtt kerfi til notkunar við skráningu verkbeiðna sem berast Reiknistofnun hefur verið í athugun/skoðun, og er nú í smíðum.

Þróunarverkefni
Unnið hefur verið í þróunarverkefnum fyrir Þjóðarbókhlöðu, fyrir Íslenska Málstöð og við netvæðingu tölvuorðasafns Skýrslutæknifélagsins.

Endurskoðaðar notkunarreglur
Endurskoðun á notkunarreglum stofnunarinnar stendur enn yfir, og hefur tekið töluvert lengri tíma en gert var ráð fyrir í upphafi. Vonir standa til að þessu starfi ljúki fyrir áramótin.

Húsnæðisbreytingar hjá RHÍ
Miklar húsnæðisbreytingar voru gerðar hjá Reiknistofnun í Nóvember. Veggir voru rifnir niður og færðir til og flestir starfsmenn fluttust um set. Þessi nýja húsnæðisskipan tekur að nokkru leyti mið af nýrri deildarskiptingu.

Jörg, Örn og Ragnar, sem eru í þjónustudeild fluttust í herbergi 216-217 sem voru sameinuð í eitt. Notendur sem þurfa aðstoð með einkatölvur þurfa því einungis að leita á einn stað til að fá þjónustu.

Guðmundur og Jón Ingi, sem starfa í netdeild, eru í herbergi 218-219 sem einnig voru sameinuð.

Deildarstjórnarnir Sæþór og Sigfús fluttust til og eru nú í herbergjum 224 og 221.

Kerfisgerð Reiknistofnunar fer nú fram í herbergi 228, þar sem Kristján Gaukur, Steingrímur og Árni eru.

Þeir sem þurfa að leita til kerfisstjóra fara í herbergi 211, 212 og 212a, þar sem þeir Magnús, Maríus, Einar og Richard hafa aðsetur.

Magnús Atli mun flytjast í herbergi 220. Douglas og Margrét munu áfram verða þar sem þau hafa verið.

Rafræn myndavél
Við viljum vekja athygli á þjónustu í kringum rafræna myndavél sem stofnunin á. Vél þessi er upplögð til að koma ljósmyndum inn á vefsíður fyrirhafnarlítið og án þess að þurfa að taka myndir með hefðbundinni myndavél, láta framkalla, prenta og skanna. Þetta er sem sagt fljótvirkt, þægilegt og ódýrt. Hafið samband við notendaþjónustu.

Um leið má minna á þjónustu við litaskanna (Apple Color OneScanner) sem staðsettur er í herbergi 222 í Tæknigarði. Þjónustan er miðuð við sjálfsafgreiðslu; Reiknistofnun leggur til nauðsynlegan búnað.

Og í allri litadýrðinni má ekki gleyma litaprentara stofnunarinnar, af gerðinni HP 1200C/PS, staðsettur í sama herbergi og litaskanninn. Nýlega var bætt við minni í prentarannm til að auka enn á notkunargildi hans. Enn sem áður er nánari upplýsingar að hafa hjá notendaþjónustunni.

  
Notendaþjónusta RHÍ,  16. febrúar 2000 

Efnisyfirlit Fyrri grein Næsta grein Önnur fréttabréf RHÍ