RHÍ Fréttir

nr. 25 apríl 1995

  

  

Kristján Gaukur Kristjánsson

Notendareglur RHÍ

Vegna endurtekinna uppákoma við notkun á búnaði í ábyrgð Reiknistofnunar hefur hér verið unnið er að því að útbúa notkunarreglur fyrir notendur og stjórnendur RHÍ.

Að sjálfsögðu er þetta mál sem kemur öllu háskólasamfélaginu við og því er æskilegt að allir þeir sem áhuga hafa á þessum málum kynni sér það sem þegar hefur verið gert og komi með ábendingar og athugasemdir við það.

Til þess að auðvelda þetta hafa þau drög sem komin eru á birtingarhæft form verið sett upp í Gopher undir Reiknistofnun Háskólans/Notkunarreglur 1995. Þessum reglum er ætlað að stuðla að réttri og viðurkenndri notkun á öllum tölvubúnaði á háskóla-svæðinu en þó verður að segja að skortur á lagasetningum frá alþingi um þessi mál hamlar mjög öllum svona málum.

Með þeirri upplýsingasprengingu sem tröllríður þjóðfélaginu um þessar mundir er bráðnauðsynlegt að skýrar reglur og lög séu til um samskipti og öryggismál tölvubúnaðar í upplýsingaþjóðfélaginu. Háskólinn ætti náttúrulega að vera í fararbroddi á þessum vettvangi og nýta þá gífurlegu þekkingu sem þar er innandyra til þess að móta stefnu sem aðrir aðilar í þjóðfélaginu geta tekið sér til fyrirmyndar.

Því skorum við á alla sem áhuga og þekkingu hafa á þessum málum að láta til sín taka og stuðla að því að reglur þessar komi til framkvæmda í þeirri mynd sem besta má telja.

  
Notendaþjónusta RHÍ,  16. febrúar 2000 

Efnisyfirlit Fyrri grein Næsta grein Önnur fréttabréf RHÍ