RHÍ Fréttir

nr. 36 janúar 2000

 

Framkvæmdir í netmálum á árinu 1999

  
Jón Ingi Einarsson 
jie@hi.is
 
Á árinu 1999 var að vanda ýmislegt framkvæmt tengt rekstri og nýlögnum Háskólanetsins. Hér á eftir verða raktir helstu þættir þessara framkvæmda.

Grensásvegur 12
Aðstaða fyrir nýtt tölvuver fékkst og gerðar voru nauðsynlegar breytingar á húsnæði. Lagðar voru nýjar lagnir og þjónustuvél (server) komið fyrir. Jafnframt þessu var tengingin uppfærð úr 64 kb/s (ISDN) í 1Mb/s með notkun sérstakra háhraðamódema.

Skógarhlíð 10
Nýjar lagnir á nokkra staði vegna breytinga á húsnæði, jafnframt lagt sérstaklega fyrir nýtt tölvuver sem þar var sett upp. Tenging hússins færð úr 28,8 kb/s í 2Mb/s með þráðlausu örbylgjusambandi.

Eirberg
Lokið var við netlagnir í yngri hluta byggingarinnar og þar var á vordögum opnað nýtt tölvuver með 20 nýjum tölvum.

Jarðvegsframkvæmdir
Grafið/borað fyrir röralögnum frá Árnagarði að Eggertsgötu 12, Aragötu 9 og 14. Í tengslum við þetta verkefni voru settir niður fimm brunnar.
Það uppgötvaðist óvænt í sumar að nokkur lagnafyrirtæki borgarinnar voru að leggja nýjar lagnir í stóran hluta af Hjarðarhaga og hluta af Neshaga. Við brugðumst skjótt við og tókst að semja við lagnaraðila um að fá að leggja rör í þeirra skurði gegn vægu gjaldi. Því miður fóru þeir ekki allan Hjarðarhagann, þannig að eftir er spottinn milli Kvisthaga og Tómasarhaga, sem og nokkrir tugir metra til að ná inn í hús í sitthvorn enda.

Aragata 9
Nýtt net var lagt í allt húsið. Nýr tengiskápur með nýjum tengi-og netbúnaði var einnig settur upp. Ljósleiðari og símakapall var lagður frá Aðalbyggingu að Aragötu 9.

Aragata 14
Nýtt net var lagt í allt húsið og Nýr tengiskápur og netbúnaður settur upp.
Ljósleiðarinn sem lagður var að Aragötu 9 lagður áfram að nr. 14. Símakapall lagður frá Aragötu 9 að 14.

Eggertsgata 12
Til stendur að tengja allt gistirými Félagsstofnunar Stúdenta við Háskólanetið. Þangað hefur verið lagður ljósleiðarastrengur frá Aðalbygginu.
Verið er að leggja ljósleiðara milli bygginganna á svæðinu. Búið er að ganga frá innanhúslögnum í flestum húsanna. 
Félagsstofnun leitaði til Reiknistofnunar eftir ráðgjöf við skipulagningu kerfisins.
Gert er ráð fyrir að allt kerfið verði komið í notkun fyrir áramót.
Fjöldi íbúðanna sem hafa möguleika á tengingu á þessu ári er um 460. Með netbúnaði gæti þetta orðið um 490 tæki. Miðað við núverandi fjölda tengdra tækja á HÍ-neti yrði þetta um 25% aukning. Þá munu innan þriggja ára bætast við þrjú ný hús með um 150 íbúðum alls.

Norræna Húsið
Nokkrir erlendir lektorar hafa haft aðstöðu í Norræna Húsinu og hafa þeir verið tengdir neti Háskólans. Nýlega var tengingin þangað uppfærð. Netlagnir hafa einnig verið endurnýjaðar og settur upp nýr tengiskápur.
Leitað var til Reiknistofnunar um ráðgjöf varðandi skipulag netsins og tilhögun. Í framhaldi af því var samið við RHÍ, að húsið í heild yrði tengt neti Háskólans. Nettengibúnaður er því í eigu og umsjá RHÍ.

Lögberg
Þessa dagana er verið er að bæta lagnir á 3. og 4. hæð þannig að allt skrifstofurými á þessum hæðum verði með nýjar lagnir.
Árnagarður
Um síðustu mánaðamót fékkst niðurstaða í staðsetningu á nýju tölvuveri. Með samstilltu átaki með starfsmönnum Bygginga- og tækni-sviðs gekk uppsetningin og allur frágangur hratt og vel. 

Oddi
Svæðið til hliðar við tölvuverið á þriðju hæð var hólfað niður. Í fram-haldi af því var tiltölulega nýlegt lagnakerfi sem tengt var í gólfdósir lagt af og nýtt kerfi lagt eftir nýjum stokkum sem settir voru upp þegar rýmið var hólfað niður.
Tengingar tölvuversins í stofu 102 voru uppfærðar í sumar. 

Nýr innhringibúnaður
Nýr og fullkominn innhringibúnaður fyrir nemendur og starfsmenn var tekinn í notkun snemma á árinu.

Símakerfi
Töluverð vinna hefur verið sett í að koma betra skipulagi á símamálin. Einn liður í því er að finna og loka númerum sem ekki eru lengur í notkun. Í nokkrum tilfellum hefur verið lagður sérstakur kapall milli húsa þannig að símasamband sé á lögnum Háskólans en ekki Landsímans. Haldið verður áfram á þessari braut á næst ári.

Skipulag á neti Háskólans
Til stendur að breyta töluvert um "strúktúr" Háskólanetsins. Búið er að semja um kaup á mjög öflugum búnaði, þannig að við eigum að geta farið með nokkurri reisn yfir 2000 marklínuna. Með þessum búnaði uppfærist tenging þeirra húsa sem okkur tengjast með ljósleiðara í 100 Mb/s. Í tengslum við þetta verður lagður nýr ljósleiðari milli þessara bygginga.
Uppstokkun kerfisins tekur vafalítið nokkurn tíma, enda þarf að halda gamla kerfinu gangandi á sama tíma. 
 

Efnisyfirlit Fyrri síða Næsta síða Útgáfuyfirlit