RHÍ Fréttir

nr. 23 desember 1994

  

  

Magnús Gíslason

Tölvur í 30 ár

Frá stofnun Reiknistofnunar Háskóla Íslands fyrir 30 árum hefur orðið gífurleg þróun í tölvutækni. Tölvan sem þá kom var af gerðinni IBM 1620 og þurfti sæmilega stórt herbergi til að hýsa hana. Hún var eina tölva Háskólans og var notuð í um 12 ár.

Ég kynntist henni örlítið á síðasta ári í menntaskóla, þegar okkurverðandi stúdentum var leyft að heimsækja hana í kjallara Raunvísindastofnunar á sunnudagsmorgni til að gata forrit okkar á spjöld, sem síðan voru þýdd og keyrð í tölvunni og niðurstöðurnar prentaðar á línuprentara.

Þegar ég hóf nám í HÍ haustið 1976 var komin ný og öflugri tölva til RHÍ. Hún var af gerð- inni IBM 360 í vélasal í VR-I . Kynni mín af henni voru öllu meiri en af 1620-vélinni. Sumir vildu nú reyndar halda því fram að hún hafi verið úrelt þegar hún kom, enda hef ég grun um að hún hafi ekki verið alveg ný af nálinni.

Sú tölvuaðstaða sem blasti við nýstúdentum, þætti víst ekki upp á marga fiska í dag. Nemendum í Verkfræði- og raunvísindadeild var einkum kennt FORTRAN IV. Forritun fór oftast þannig fram að forritin voru fyrst handskrifuð á þar tilgerð eyðublöð. Þegar því var lokið og forritið átti að heita rétt, var farið út í VR-I þar sem nokkrum spjaldagöturum hafði verið komið fyrir á ganginum. Þar var forritið sett á gataspjöld eftir blöðunum. Því næst var farið inn í vélasal þar sem tölvari tók við spjaldabunkanum og setti í þar til gerðan lesara. Ef heppnin var með voru fá eða engin spjöld fyrir í lesaranum og það tók því jafnvel að bíða eftir keyrslunni. Oftar var þó hár stafli af spjöldum margra annarra notenda á undan í röðinni og þá var ekki um annað að ræða en að koma seinna og sækja útprentunina. Á henni voru niðurstöður þýðingar og keyrslu forritsins. Ef lítið var að gera var hægt að þýða og keyra forrit nokkrum sinnum á dag, en oft varð að láta sér nægja eina keyrslu daglega.

IBM 360-tölvan var í mörgum skápum. Hún hafði 64K innra minni, 6 diskadrif fyrir 7½ Mb útskiptanlega diska, c.a. 4 segulbandstöðvar auk spjaldalesara og línuprentara. Hún gat einungis unnið í runuvinnslu, þ.e. eitt verk í einu.

Reiknistofnun eignaðist um svipað leyti fjölnotendatölvu af gerðinni PDP-11/34 sem upp- haflega var fengin til að stýra tölvuteiknara. Við hana voru tengd undratæki sem nefnast skjáir. Ekki minnist ég þess að nemendur á 1. misseri hafi fengið að snerta á henni en fljótlega upp úr því var farið að nota hana við kennslu tiltekinna námskeiða. Smám saman var farið að nota PDP-vélina meira í stað 360-vélarinnar, einkum þó stóru systur hennar, PDP-11/60 sem kom um tveimur árum síðar.

Fyrsta meiri háttar breytingin á tölvunotkuninni frá 1964 varð svo 1980 þegar keypt var tölva af gerðinni VAX-11/780 og IBM 360-tölvunni var lagt. VAXinn var mun öflugri en fyrirrennarar hans en mesta byltingin fólst í því að ekki var lengur forritað á gataspjöld, heldur fóru öll samskipti við tölvuna fram á skjá.

Um svipað leyti eignaðist RHÍ fyrstu einmenningstölvuna. Hún var af gerðinni TRS-80 með 4K í innra minni og venjulegt kasettutæki var notað sem ytri geymsla fyrir gögn.

Þar sem notkun tölva við kennslu var alltaf að aukast var bætt við annarri VAX-tölvu um 1983. Upp úr því fóru einmenningstölvur einnig að ryðja sér til rúms, auk þess sem raddir innan RHÍ fóru að verða háværar um að farið yrði að keyra Unix-stýrikerfið á fjölnotendatölvum stofnunarinnar í stað VMS sem var á VAX-tölvunum. Árið 1984 var settur upp fyrsti vísirinn að Unix-kerfi, Eunice, sem var e.k. eftirherma sem keyrð var ofan á VMS á annarri VAX-tölvunni.

Ekki eru allar ferðir til fjár. Það sannaðist þegar áformað var að tengja Háskóla Íslands við umheiminn um tölvunet. Til stóð að tengjast EARN, hinum evrópska hluta BITNET. Fengin var aflóga skessa af gerðinni IBM 4341 og eftir margra mánaða undirbúning og hlutfallslega enn lengri uppsetningartíma var þessari tengingu loksins komið á. Gallinn var hins vegar sá að nánast enginn fékkst til að nota hana.

Það var ekki fyrr en fyrsta alvöru Unix-tölvan, Krafla, af gerðinni HP-9000/840 kom 1987 að tenging við umheiminn varð raunhæfur kostur. Þá var lagður grunnurinn að því tölvuumhverfi sem er í HÍ í dag, þ.e. miðlægar fjölnotendatölvur sem tengdar eru saman með TCP/IP-samskiptum á neti, sem teygir anga sína um allt háskólasvæðið og tengist alþjóðlega tölvunetinu Internet. Á háskólanetinu eru svo notendur með Unix-vinnustöðvar, PC-vélar og Macintosh-tölvur. Reiknigeta tölvanna hefur margfaldast á síðustu 30 árum. Sem dæmi má nefna að aðaltölva RHÍ í dag, Hengill, af gerðinni HP-9000/755 getur reiknað á við 100 VAX-11/780 tölvurnar. Ég tel að ekki sé fjarri lagi að áætla að samanlögð reiknigeta allra tölva í eigu Háskólans og stofnana hans sé a.m.k. milljónföld reiknigeta IBM 1620- tölvunnar sem þó er ekki nema þrítug.

Sú öflugasta og sú elsta

Á vinstri myndinni hér að ofan má vinstra megin sjá Hengil, HP 9000/755 tölvu Reiknistofnunar. Hægra megin við Hengil eru diskarnir á Kröflu, samtals 0,9GB (900 MB). Efst á þeirri stæðu eru diskar tengdir Hengli, samtals 4GB þannig að sjá má að þróunin hefur orðið mikil.

Hægri myndin er af fyrstu tölvu Reiknistofnunar, IBM 1620. Á þessum tíma var enn ekki komin diskastöð við vélina en stóri kassinn sem glittir í hægra megin við hana er gataspjaldalesari. Diskarnir sem síðar voru tengdir við 1620 vélina tóku um 2MB hver og voru nærri því jafn miklir um sig og Hengill.

Ljósmynd af IBM 1620 er í eigu Þorsteins Sæmundssonar.

  
Notendaþjónusta RHÍ,  16. febrúar 2000 

Efnisyfirlit Fyrri grein Næsta grein Önnur fréttabréf RHÍ