Apríl 1994

 

Guðmundur Bjarni Jósepsson

Steingrímur Birgisson

Nokkur atriði fyrir byrjendur á PC vélar

Flestir eru eilítið skelkaðir þegar þeir setjast fyrir fram tölvu í fyrsta skipti. Allir gera sömu byrjendamistökin og hafa áhyggjur af því að þeir geti eyðilagt vélina. Maður svitnar í lófunum þegar styðja þarf á hnappa og maður er sannfærður um að þetta muni aldrei lærast.

Að læra á tölvu er ekki ósvipað því að læra á bíl. Þetta virðist dálítið erfitt í fyrstu en smám saman fær maður þetta á tilfinninguna. Fyrr en varir er maður farinn að æða um göturnar (eða skjölin) á fleygiferð.

Til að ná þessu, þarf að læra nokkur einföld grundvallaratriði. Hér að neðan eru nokkur.

Vistaðu oft og reglulega. Þó að mörg forrit, eins og til dæmis WordPerfect, bjóði upp á tímastillta afritun þá geta gögn tapast á milli þess sem forritin taka sjálf afrit. Það er gott að venja sig á að vista þegar maður tekur sér pásu frá vinnunni eða þegar búið er að slá inn dálítið magn af gögnum. Ég vista til dæmis alltaf þegar ég er búinn að vélrita u.þ.b. hálfa síðu. Það tekur stuttan tíma að vista og getur sparað mikið vesen.

Taktu afrit. Það er ekki nóg að vista reglulega. Það skiptir engu máli hversu oft hefur verið vistað ef skyndilega koma skilaboð á skjáinn: "Fatal Disk Error, Drive C:". Eins og sagt var frá í síðasta fréttabréfi er einfalt að koma sér upp kerfi fyrir öryggisafritun. Hægt er að gera þetta með því nota copy skipunina og einnig eru til sérstök forrit til að gera þetta.

Ekki nota íslenska stafi í skráanöfnum. PC tölvur taka það óstinnt upp ef skrár eða skráasöfn heita íslenskum nöfnum. Þegar skrár eru búnar til í MS-DOS skiptir engu máli hvort notaðir eru litlir eða stórir stafir í skráanöfnunum. MS-DOS sér um að varpa öllum stöfum í hástafi ef þeir tilheyra enska stafrófinu. MS-DOS og flest önnur samhæfð stýrikerfi eru skrifuð í Bandaríkjunum. MS-DOS veit ekkert hvað á að gera við íslenska stafi og afleiðingarnar af að nota þá í skráaheitum geta verið slæmar og ófyrirsjáanlegar. Skrá sem notandi vistar sem þórður.doc getur breyst í OORIUR.DOC. Einnig er til í dæminu að MS-DOS neiti því að skrár sem heita íslenskum nöfnum séu til, jafnvel þótt þær sjáist þegar skipunin dir er gefin. Augljóslega er þetta ekki mjög heppilegt. Notið ekki íslenska stafi í skráanöfnum!

Skipulegðu harða diskinn. Harðir diskar eru oft álíka vel skipulagðir og gatnakerfið í Kópavogi. Maður ratar ekkert og finnur aldrei það sem verið er að leita að. Með því að nota skráasöfn til að skipuleggja diskinn er hægt að bæta úr þessu.

Þeir sem ætla að notfæra sér skráasöfn þurfa að læra 3 skipanir: md (make directory) býr til skráasafn, cd (change directory) breytir um skráasafn og rd (remove directory) eyðir skráasafni. Mjög einfalt.

Til að búa til fyrsta skráasafnið á drifi C: þarf notandinn fyrst að fara í rót skráakerfisins. Það er gert með því að slá inn cd\ . Síðan er skráasafn búið til með md skipuninni, til dæmis md bref. Sláið síðan inn cd bref til að fara í það skráasafn. Síðan er hægt að bæta við skráasafni þar, til dæmis með skipuninni md einkamal. Til að skoða innihald skráasafns er slegin inn skipunin dir. Til að eyða skráasafninu einkamal er skipunin rd einkamal slegin inn.

Hættu í forritum á réttan hátt. Mörg forrit búa til tímabundnar vinnsluskrár, annað hvort í innra minni tölvunnar eða á harða diskinum. Ef vinnslu er hætt og slökkt á tölvunni án þess að hætt sé í forritinu geta gögn í tímabundnum skrám í innra minni tapast. Séu þessar skrár geymdar á diskinum fær forritið ekki tækifæri til að eyða þessum skrám. WordPerfect, til dæmis, bregst við þessu með því að spurja: "Eru önnur eintök af WordPerfect í gangi núna? (J/N)" næst þegar það er ræst. Þegar stutt er á n eyðir WordPerfect gömlum skrám og heldur áfram.

Meðhöndlaðu disklinga varlega. Disklingar eru viðkvæmir. Minnstu rykagnir og óhreinindi geta haft áhrif á diskling og gert það að verkum að ómögulegt er að lesa af honum. Hafið því disklinga alltaf í hlífðarumbúðum (nærbuxunum) og snertið aldrei segulhúðina. Disklingar þola illa mikinn kulda eða mikinn hita. Ef merkja þarf diskling skal nota penna með mjúkum oddi, ekki kúlupenna. Ekki beygja disklinga og ekki troða bréfaklemmum á þá. Það getur skemmt segulhúðina.

Lærðu að bjarga týndum skrám. Stundum kemur það fyrir að skrám er eytt óvart. Það þarf ekki endilega að þýða að skráin sem eytt var sé týnd að eilífu. Þegar skrám er eytt í MS-DOS er þeim í rauninni ekki eytt. Það sem gerist er að fyrsta stafnum í skráarnafninu er breytt í ? og tölvunni sagt að hún megi nota plássið sem skráin er á til að vista aðrar skrár.

Ef skrá er eytt óvart skal gæta þess að vinna ekkert á vélina eða að minnsta kosti að vista ekkert á harða diskinn eða disklinginn sem skráin var á. Í MS-DOS 5.0 og nýrra er til forrit sem heitir undelete. Ef skránni tilraun.txt hefur verið eytt er hægt að gefa skipunina undelete tilraun.txt. Tölvan reynir þá að finna skrá sem heitir tilraun.txt. Ef það tekst birtast skilaboð á skjánum og þar stendur meðal annars: "?ILRAUN 8 11/04/94 14:24 ...A Undelete (Y/N)?" Þessari spurningu er svarað með y. Þá birtist: "Please type the first character for ?ILRAUN . : " og er þá stutt á t. Fyrsta stafnum er þá aftur breytt í t og skráin tilraun.txt birtist aftur þegar skipunin dir er gefin.

Ef vistað hefur verið á harðan disk eða diskling eftir að skrá hefur verið eytt, minnka líkurnar á að hægt sé að bjarga eyddu skránni töluvert. Í því tilfelli er rétt að leita aðstoðar sérfræðinga. Þó að ekki sé hægt að bjarga skrám heild er oft hægt að bjarga hlutum af þeim.

Fjarlægðu disklinga á réttan hátt. Engum dettur í hug að stíga út úr bíl þegar hann er á 100 km/klst hraða. Það sama á við disklinga, maður rífur ekki diskling út úr disklingadrifinu þegar hann snýst með nokkur hundruð snúninga hraða á mínútu. Ef ljósið á disklingadrifinu er kveikt þýðir að disklingurinn er á hreyfingu. Ef disklingurinn er fjarlægður þegar kveikt er á ljósinu þá eru góðar líkur á því að hann verði fyrir varanlegum skemmdum og gögn sem áttu að fara á hann verði týnd og tröllum gefin. Þess vegna getur það margborgað sig að bíða rólegur á meðan á ljósinu lifir.

Vertu á varðbergi gagnvart veirum. Tölvuveira er forrit sem veldur skemmdarverkum á forritum og gögnum og hjá slíku vilja allir komast. Um leið og disklingi frá öðrum er stungið í disklingadrifið er verið að bjóða heim hættunni á því að tölvan smitist af veiru. Fáðu þér því veiruleitar- og veiruvarnarforrit og notaðu það. Forritið gerir ekkert gagn ofan í skúffu. Ef þú lendir í vandræðum sem þig grunar að sé vegna veiru skaltu slökkva á tölvunni og leita aðstoðar sérfræðinga. Veirur geta breiðst mjög hratt út og valdið miklum skemmdum ef ekkert er að gert.

Efnisyfirlit Fyrri grein Næsta grein Önnur fréttabréf RHÍ