Reglur um notkun tölvubúnaðar

Reglur um notkun tölvubúnaðar í eigu eða umsjá Háskóla Íslands (HÍ) og tölvunets Háskóla Íslands (HInet). 
 
Reglur um notkun tölvubúnaðar í eigu eða umsjá Háskóla Íslands miða að því að notendur geti notfært sér búnað og þjónustu, sem stendur til boða, á greiðan og einfaldan hátt. 
 
Reglurnar gilda fyrir alla starfsmenn og stúdenta HÍ og stofnana hans og aðra notendur tölvubúnaðar HÍ og notendur HInets. Notendum er skylt að kynna sér reglurnar. 
 
Aðgangur að tölvubúnaði, tölvuneti, gögnum og annarri þjónustu sem veitt er hjá HÍ og á HIneti er ætlaður til eflingar náms, kennslu, rannsókna, samvinnu og samskipta háskólamanna og annarra þátta er samræmast hlutverki og markmiðum HÍ og stofnana hans. 
 
Tölvubúnað, tölvunet, gögn og aðra þjónustu sem veitt er hjá HÍ og á HIneti ber að nota heiðarlega, siðlega og löglega. Hver einstakur notandi ber ábyrgð á notkun sinni. 
 
Nota ber aðeins þann tölvubúnað sem viðkomandi hefur leyfi til. Notandi skal auðkenna sig rétt í öllum samskiptum á HIneti og netum sem tengjast því. 
 
Notandi skal sérstaklega gæta öryggis lykilorðs síns og gæta þess að nota það hvergi annars staðar, t.d. á vefsíðum eða samfélagsmiðlum.     
 
Notandi skal gera það sem í hans valdi stendur, til að tryggja öryggi tölvubúnaðar HÍ. Virða ber friðhelgi annarra notenda og fara í einu og öllu eftir höfundaréttarákvæðum hugbúnaðar, forrita og gagna sem notuð eru. Virða ber reglur einstakra neta og upplýsingaveitna. 
 
Notandi skal gæta að umfangi gagna sem flutt eru, kostnaði því samfara og áhrifum sem gætu skert notkunarmöguleika annarra notenda. 
 
Óheimilt er að reyna að tengjast tölvubúnaði HÍ eða annarra aðila, sem tenging fæst til um HInet, með því að gefa upp notandanafn sem viðkomandi hefur ekki rétt til að nota. Óheimilt er að reyna að komast yfir lykilorð annarra notenda innan HÍ eða utan. Óheimilt er að gefa öðrum upp lykilorð sitt. 
 
Óheimilt er að reyna að komast yfir gögn eða hugbúnað í eigu annarra, nema skýrt leyfi sé fyrir hendi. Óheimilt er að breyta eða reyna að breyta hugbúnaði eða gögnum hjá öðrum notendum eða hafa á annan hátt áhrif á notkunarmöguleika annarra notenda. 
 
Óheimilt er að breyta, færa til eða fjarlægja vélbúnað, hugbúnað eða gögn sem eru í eigu HÍ eða stofnana hans, nema með skýru leyfi eiganda. 
 
Óheimilt er að afrita hugbúnað eða gögn sem ekki eru í eigu viðkomandi notanda nema með skýru leyfi eiganda. 
 
Óheimilt er að nota tölvubúnað eða gögn HÍ í viðskiptalegum tilgangi, án sérstaks leyfis. 
 
Óheimilt er að villa á sér heimildir í samskiptum, til dæmis þegar sendur er tölvupóstur eða á annan hátt. 
 
 
 
Brot á reglum 
 
Verði vart við brot á notkunarreglum getur komið til þess að notandanafni viðkomandi aðila verði lokað og upplýsingar um meinta misnotkun sendar viðkomandi fræðasviði og deild til umfjöllunar og úrskurðar. 
 
HÍ áskilur sér rétt til að loka fyrir aðgang að tölvubúnaði og HIneti, ef rökstuddur grunur leikur á að notkun viðkomandi sé hættuleg rekstraröryggi HÍ, HInets eða skaði orðstír HÍ. 
 
Brot á reglum þessum gætu varðað hegningarlög, lög um meðferð opinberra mála og önnur landslög, eftir því sem við á. 
 
Gerist stúdent sekur um brot á lögum eða öðrum reglum Háskóla Íslands getur það varðað áminningu eða brottrekstri úr HÍ, um tiltekinn tíma eða að fullu sbr. 19. gr. laga um opinbera háskóla 85/2008 með áorðnum breytingum. 
 
 
Reglur þessar voru settar af Upplýsingatæknisviði Háskóla Íslands þann 1. júní 2018 og tóku þegar gildi.